Hér er ekkert að finna. Málfundafjelagið er liðið undir lok
FORVM POETICVM: Haust

FORVM POETICVM

Málgagn Málfundarfjelags vinstrisinnaðra ungskálda

giovedì, ottobre 06, 2005

Haust

Útum ljóra minn sá ég í ljóma
ljóssins standandi' í blóma
og runnin og blómin veittu því vé
og stóð það í fyllingu ljóssins,
hið vænsta, fegursta, blómskrýdda tré.

Meiri fegurð mér færðu,
fylltu mig og endurnærðu,
því daglega litanna ljómi
varð fegurri' og litmeiri' en áður,
og losta mig lagðist á drómi.

Á ljóranum lá ég í leiðslu,
líkastri drottins tilbeiðslu,
og tíminn og stundin mér blésu í brjóst
að dýrðina mála ég þyrfti,
því brátt færi dýrðin, mér var fullljóst.

Með haustinu lauf fóru' að falla,
fyrst svo fór um einn fer um alla,
í ofboði mínu ég stökk niður stigann.
Ég hugði ég hefði það út,
með standinn minn, penslana' og strigann.

En lífklæði elskunnar lágu
litlaus með andlitin gráu
og löstuðu mig hví ég barðist ei betur
fyrir ljósi hins útlýsta lampa.
Nú grúfir yfir mér níðkaldur vetur.