Hér er ekkert að finna. Málfundafjelagið er liðið undir lok
FORVM POETICVM: Örbirgð

FORVM POETICVM

Málgagn Málfundarfjelags vinstrisinnaðra ungskálda

martedì, novembre 29, 2005

Örbirgð

Ég sé eymd í hverju horni
í hverjum kima sé ég sorg.
Á göngu sé ég svartstakk
sín vonbrigði bera á torg.

Í augum sérhvers er angist
og eilífðar nístir hvern mein.
Í vondri sem þessari veröld
vér vargbitin stöndum ein.

Í vetrarins húmi þeir hírast
við húsgafl sér orna’ undir feld.
Þeir hafa’ eigi viður né væri
né vonir né hugsjónaeld.

Hverfa mun lífið úr lúkum
ljábitnum manna vors lands.
Því hver geldur þeim fyrir gullið
sem ginnt var af þeim fyrir sand?

Fært í rím þann 29. nóvember 2005. Tilefni kvæðisins er, að ég sá svartklæddan eymingjalegan mann rogast með poka af áldósum eftir Suðurlandsbrautinni, hvar Kauphöllin lá í baksýn.

Gera mætti athugasemd við málfræðiatriði í fjórða erindi, „lúkum ljábitnum manna“.
Mun einhverjum e.t.v. finnast, að þar ætti að standa „lúkum ljábitinna manna“, en við það ruglast merkingin, þar sem mennirnir eru ekki ljábitnir heldur lúkur þeirra.
Einhverjum gæti ennfremur fundist, að betur færi að segja „lúkum ljábitnum mönnum“, en ljábitnum er hér ekki forsetningin, heldur lúkum, og því fer fall manna eftir því.
Mun þá vonandi gert út af við mögulegar athugasemdir málfræðifasista.