Hér er ekkert að finna. Málfundafjelagið er liðið undir lok
FORVM POETICVM: Varðandi Makbeð

FORVM POETICVM

Málgagn Málfundarfjelags vinstrisinnaðra ungskálda

martedì, gennaio 17, 2006

Varðandi Makbeð

Líkt og rennsli strætanna ratar í ræsið
Með stubbana, eru þessir öskukarlar.
Þeir ljúga sig inn á milli vara fólks,
Færandi fagurgala og gotterí,
Sem ávallt bragðast eins og brunninn kostur,
Uns þeir hafa verið reyktir til hlítar,
Þeim er varpað fyrir róða í ræsið,
Og fírað er upp í næstu nöðru,
Allt þar til allt fólkið er dautt.
Ávallt er fólk jafn sólgið í sviðna mæru.
Þannig er gangverk sögunnar: einn kóngur
Er myrtur, heimskur morðinginn sprangar um sviðið
Spúandi fram sinni fjálglegu sögu,
Hlaðinni háreysti og látum,
Um leikara í röngum búning á röngu sviði
Sem getur ekki hætt að leika,
Uns hann er sjálfur brunninn upp,
Og næsta fífl tekur upp þráðinn.
Því að gera er að vera
Og að vera er að gera.
Þegar nornirnar magna seiðinn
Þegar spörfuglarnir murka illfyglin
Þegar jóirnir éta hvern annan
Þegar rýtingarnir dansa í rökkrinu
Þegar lygar eru blessaðar
Þýðir lítið að segja
Að fylltur sporðdrekum sé hugur Guðs.
Þýðir lítið að gnísta tönnum
Þó mýgurinn myrki, hinn grimmi sjóli
Hafi sína hentisemi
Í skjóli þess umboðs sem honum var veitt.
Glóandi krúnur bera þeir,
Hlaðandi hauskúpum undir hásæti sín
Myrðandi sakleysið og svefninn,
Þessir stubbar, þessir nornakóngar
Sem fólk fæst ekki til
Að hætta að totta.