Hér er ekkert að finna. Málfundafjelagið er liðið undir lok
FORVM POETICVM: maggio 2006

FORVM POETICVM

Málgagn Málfundarfjelags vinstrisinnaðra ungskálda

martedì, maggio 16, 2006

Af vonum mannsins og þrám

Vonir mannsins og þrár
eins háleitar og
fallið sem þær leiða af sér

fallið eins hátt og
vonir mannsins og þrár
eru óraunhæfar.

Í hæðinni hefir
hann jafnan fundið botninn.

sabato, maggio 13, 2006

Lítið ljóð um líf eftir dauðann

Ég vona að í himnaríki
verði allir aftur lítil börn
sem leiki sér með gullna bolta
og svífi um á skýjahnoðrum
og haldist í hendur inn í eilífðina

sabato, maggio 06, 2006

Gengið framhjá kirkjugarði

Á kyrrlátu haustkvöldi
varð mér gengið framhjá gamla kirkjugarðinum
umkringdum steinvegg
dauft ljós frá luktunum
lýsti upp klappir og krossa
sem teygðu sig upp úr jörðinni
í náttmyrkrinu
grafir hinna framliðnu
undarlegt, hve myrkrið var meira þar en á himninum
utan birtuna sem á þá féll
sálnahliðið stendur upplýst í garðinum
klukkan er hljóð
ef til vill voru það trén og runnarnir
í myrkrinu glóði á roðið og gullið laufskrúðið
sem baðaði trén, kræklóttar greinarnar
í gegn um trjámyrkrið lýsti af ljósastaur
eins og stjörnu, þó grámóska væri á himni
og enn voru græn blöð vorsins
á trjám og runnum
í garði hinna framliðnu
það mun glóa eða roðna
á farvegi lífsins
falla frá
og fæðast að vori.

giovedì, maggio 04, 2006

Hvunndagshetjan

Opnar augun fyrir raunveruleikanum
horfir á veginn framundan

það er hvunndagshetjan.

mercoledì, maggio 03, 2006

Hreyfimynd af rigningu spiluð afturábak

Droparnir hoppa upp úr gáruðu vatni
og svífa aftur upp til móðurhúsa
þar verður þeim fagnað
för þeirra verður að goðsögu
goðsögunni af dropunum
sem fóru til jarðar en sameinuðust ekki
vatninu
heldur fóru aftur heim
í móðurfaðminn
þar sem þeim fannst svo gott að vera.

lunedì, maggio 01, 2006

Fyrirheitna landið

Við fluttum hann úr eymdinni til fyrirheitna landsins
þar sem gullið myndi drjúpa af hverju strái
og hann færi á hnotskóg og baðaði sig í smjöri
nú stritar hann allan daginn með bogið bak
við aðbúnað sem hæfir þræl
við borgum honum túskilding með gati
og minnum hann á að það er góðæri
ef við byðum löndum okkar sömu kjör
værum við húðflettir, troðið í gapastokk og loks hengdir úr hæsta gálga
heimalningarnir jarma um stolin störf
sem þeir nenna ekki að vinna
en er ekki öllum sama þó hann hafi það skítt?
Hann er helvítis útlendingur