Hér er ekkert að finna. Málfundafjelagið er liðið undir lok
FORVM POETICVM: aprile 2006

FORVM POETICVM

Málgagn Málfundarfjelags vinstrisinnaðra ungskálda

giovedì, aprile 27, 2006

Augun

Blá
svo falleg
mig litu forðum

horfa nú annað.

mercoledì, aprile 26, 2006

Sumarnætur

Þegar miðnætursólin skín
stíga blómarósirnar úr dvala
skríða úr vetrarhíðinu
og springa út
söngvarnir óma
og dansinn dunar
trumbuslög hjartanna
eitt brennur, annað brestur
vessar streyma inn og út í villtri hringrás
þau rísa í austri og hníga í vestri
því fengitíminn er hafinn

martedì, aprile 25, 2006

Vor

Ég veit vorið er komið
því það snjóaði í gær
það er víst nýja reglan

lóan fraus við landtöku

við sjáum hana í haust
með dvínandi sköflum

fjölgandi
hröfnum.

lunedì, aprile 24, 2006

Dögun

Fiðrildið brýst út úr púpunni. Hrafninn klekst úr eggi og krunkar sína fegurstu söngva. Glymur í hömrum og áin fossar auri. Mildur þytur í rökkvuðum skóg.
Stjarna tindrar í myrkrinu, döggin glitrar. Ljósberi morgunsins.
Kolbíturinn er risinn úr öskustónni og horfir út í dreirrauðan bjarmann. Hann lifir, hann andar hann elskar.
Askan er horfin en glóðin logar í brjóstinu.

domenica, aprile 23, 2006

Baiser volé

Einn koss
frá þér
í rökkri

er nóg til að:
breyta loga í bál
framkalla flugeldasýningu
skapa glæstar skýjaborgir

þó hann sé stolinn.

lunedì, aprile 17, 2006

Ránfuglar

Orrahríð herþotanna
breiðir út vænghafið
í oddaflugi, hnitar hringa
og verpir sprengjum í hreiðrin
úr sprengjuhrærunni klekjast afkvæmin
í sviðnum hreiðrunum
ungarnir höggvast á
en fylgja svo flugi feðranna
út að sjóndeildarhringnum
þar sem örmagna sólin
hnígur blóðstokkin til viðar
í hinsta sinn

domenica, aprile 16, 2006

Á sólríkari degi

Allt er í ólagi
framtíðin setur að okkur
ugg um að aldrei
komi sólríkari dagur
við sitjum ósýnileg
í skugga trjánna
og böðum okkur í
faðmlögum
hvort annars, reynum
að snerta hillingu
sumarsins, en birtan
hótar að koma upp um okkur.

sabato, aprile 15, 2006

Næturljóð

Nóttin eins og dökkhærð stúlka
djúp augu og myrk
leiftrandi sjáöldur
blóðrauðar varir
roðaglóðin lýsir í brosi hennar
og tunglið er hrímhvítur fákur
með silfraða spora
norðurljósin ólgandi bylgur
reikandi sála í faxi hans
kaldar lýsa stjörnurnar
í augu hennar

venerdì, aprile 14, 2006

Stúlkan og rósin

Húmið kallast á við kyrrðina
rósin á við döggina
hrafninn kveðst á við tunglið

í Garði eilífðarinnar
situr stúlka
telur krónublöð

elskar hana

í garðinum tjörn
í tjörninni brim, barmafull
hrynja múrar

hrafninn hvíslar í eyra
á botni tjarnarinnar
stúlkan

en rósin er horfin.

giovedì, aprile 13, 2006

Ónefnt

Líttu undan
svo ég sjái ekki tárin
svo ég telji þau ekki
og festi verðgildi
á sorg þína
og selji á bók
með 30% hagnaði.

Aftaka

Bláköld
horfi ég framan í svartan raunveruleikann

miskunnarlaust
felli ég dóminn

það er aðeins sól í draumum.

mercoledì, aprile 12, 2006

Til minningar fyrir friði, eftir kvikmyndasýningu fórnarlamba stríðsins, 18.mars 2006

Tóm orð
sem lýsa aldrei hryllingnum
reyni að loka augunum
þar til það er afstaðið
fjórir grímuklæddir menn
þylja yfirlýsingu
ég skil ekki mál þeirra
en veit hvað er í vændum
þó ég viti hvað muni gerast og hefur þegar gerst
bið ég þess innra af öllum mætti
að það gerist ekki
við vorum vöruð við
samt er maður aldrei viðbúinn
miðaldra vesturlandabúi, skjálfandi af hræðslu
bundnar hendur og fyrir augu
mér finnst ég kominn í hans stað
skelfingin ólýsanleg
ég píri augun
sé sax dregið
klemmi augun en heyri gegn um myrkrið
hægt, eins og sög
hryllingsópið nístir mig
nei, tóm orð sem lýsa aldrei hryllingnum
hvenær lýkur því?
það heldur áfram og áfram
eins og því sé ekki ætlað að ljúka
loks þagnar hljóðið
ég opna augun
glittir í höfuð
píri nötrandi augun, bíð aðeins lengur
hönd með blóðugt höfuð mannsins
sem var á lífi í máttvana skelfingu
fyrir örskoti síðan
fyrir augum manns
stirnað í angistarópi
Fyrir hvað?
Frelsi?
Sjálfstæði?
Lýðræði?
Og þið spyrjið hvers vegna ég hati stríð?
Hvað ég hafi á móti hernámi?
Myndirnar renna áfram,menn, konur og börn
hver mynd annari hrottalegri
eins og maður sé ristur á hol
aftur og aftur og aftur
nei, þetta málverk get ég ekki málað
enda væri það eflaust bannað
sendiboðinn skotinn, enn ein myndin
er þetta bara mynd, nafn, tölustafir,
sem mást burt með morgunkaffinu?
Dagur eftir þennan dag
Ný gleði, ný sorg
myndir sem hreyfast og líða áfram
en þeim er ekki lokið
þessar myndir lifa, þó þær séu af ríki dauðans
og fólkið lifir líka, sem eftir er
svipt ástvinum, örkumlað
allt lifir í ykkur, lifir í mér, með okkur öllum
sem sjá, opnum við augun
þið gleymist ekki
og hver veit
kannski getum við tekið nýjar myndir
ef við fáum nýtt myndefni
og hið gamla hverfur á braut
að eilífu
Fátækleg orð mín
til minningar um ykkur
Hvíl í friði

Póstkort í Vesturbæinn

Ekkert af þessu
er að gerast

svona kemur bara
fyrir annað fólk

en það hjálpar mér
að vita að
ég elska þig

á förum
verð ég
aldrei fjarlæg

í fjarlægð
verð ég
aldrei farin

mundu

megi rökkrið rofna
á herðum þér
megi regnið hrökkva
á glugga þínum
megi fuglinn syngja
í garði þínum
megi hamingjan dansa
í augum þér

passaðu þig á nautunum

-mamma.

martedì, aprile 11, 2006

Boðflenna

Morguninn kom
óumbeðinn

og honum var ekki fagnað

að minnsta kosti
ekki af minni hálfu

lunedì, aprile 10, 2006

Brenna

Er annað eins ljúfsárt og ást í meinum?

I
Á mörkum boða og banna
býr brennandi þrá
glæðist eldur í hjörtum
ástríður ólgandi
logandi ljómandi
leysa úr læðingi
ókunn öfl.

II
Í dagrenningu deyjandi eldurinn
aðeins askan minnisvarði næturinnar
nagandi handarbökin
kveðjast án kossa.

Mynd af regni á steinköldum gráum degi

Steypandi regnið
steypir alla
í sama mót:

gráir menn
í gömlum frökkum
regnhlífar
sem fórna sjálfum sér.