Hér er ekkert að finna. Málfundafjelagið er liðið undir lok
FORVM POETICVM: gennaio 2006

FORVM POETICVM

Málgagn Málfundarfjelags vinstrisinnaðra ungskálda

venerdì, gennaio 27, 2006

Draumur um veruleika

Eitt andartak í eilífðinni.

Augu mætast,
hendur finnast,
alveran tekur kipp.
Hjörtu slá
Óðinn til gleðinnar.

Draumur í vöku,
draumur í fyllingu,
hrædd snerting,
vonir, væntingar,
ósk sem rætist.

Mjúkur koss
eða
draumur um veruleika?

Ort aðfaranótt þess 23. janúar 2006.

Gímaldið okkar kæra

Ófædd sólin bærðist í þér
Þögul til síns dauða...
Fór niður ofnotað skólprörið
Eins og restin af okkar skítuga sannleika
sem hvorugt tjáði sig um

ólst ekkert ljós upp undir skýinu
Skíta drullugu mengað af svikunum
staðinn varð hún að gímaldi
Þar sem pláss var fyrir frekari lygar
Og vírus okkar að dafna

Gap aldið dró að sér skyn tungls og sólar
Í alúð sinni kæfði geislana tvo
Hvorugt gat streist á móti
Sokkin í svartholið nú
Með ekkert nema vírusinn, hvert held eg nú

martedì, gennaio 24, 2006

Lokaorð fyrir framan aftökusveitina

Rétt fyrir ótímabæran dauða minn
vildi ég aðeins koma þessu á hreint:

ofbeldi fylgir ekki umburðarlyndi
hatri fylgir ekki ást
dauða fylgir ekki líf
stríði fylgir ekki friður

giovedì, gennaio 19, 2006

Ein samlíking

Ástin er
eins og að hlaupa
upp háan klett og
fleygja sér fram
af hæsta
hengiflugi, með
það í vændum
að þín bíði
annað tveggja,
dúnmjúkt ský
að grípa í eða
óvægin endalokin.

martedì, gennaio 17, 2006

Varðandi Makbeð

Líkt og rennsli strætanna ratar í ræsið
Með stubbana, eru þessir öskukarlar.
Þeir ljúga sig inn á milli vara fólks,
Færandi fagurgala og gotterí,
Sem ávallt bragðast eins og brunninn kostur,
Uns þeir hafa verið reyktir til hlítar,
Þeim er varpað fyrir róða í ræsið,
Og fírað er upp í næstu nöðru,
Allt þar til allt fólkið er dautt.
Ávallt er fólk jafn sólgið í sviðna mæru.
Þannig er gangverk sögunnar: einn kóngur
Er myrtur, heimskur morðinginn sprangar um sviðið
Spúandi fram sinni fjálglegu sögu,
Hlaðinni háreysti og látum,
Um leikara í röngum búning á röngu sviði
Sem getur ekki hætt að leika,
Uns hann er sjálfur brunninn upp,
Og næsta fífl tekur upp þráðinn.
Því að gera er að vera
Og að vera er að gera.
Þegar nornirnar magna seiðinn
Þegar spörfuglarnir murka illfyglin
Þegar jóirnir éta hvern annan
Þegar rýtingarnir dansa í rökkrinu
Þegar lygar eru blessaðar
Þýðir lítið að segja
Að fylltur sporðdrekum sé hugur Guðs.
Þýðir lítið að gnísta tönnum
Þó mýgurinn myrki, hinn grimmi sjóli
Hafi sína hentisemi
Í skjóli þess umboðs sem honum var veitt.
Glóandi krúnur bera þeir,
Hlaðandi hauskúpum undir hásæti sín
Myrðandi sakleysið og svefninn,
Þessir stubbar, þessir nornakóngar
Sem fólk fæst ekki til
Að hætta að totta.

Brennt barn forðast ekki eldinn

Mistök eru til
þess að gera þau
aftur.

Líklegast sagði
hann þetta rétt
áður hann var brenndur.

Það var svosem
alltaf vitað að það
yrði ekki hlaupið að
því að verða snillingur.

En mistök eru
til þess að
gera þau aftur.

sabato, gennaio 14, 2006

Ást

Tveir regndropar
einir í heiminum
- á rúðunni -
hvor í sínu horninu.

Báðir renna hægt
að sömu örsmáu dældinni
í glerinu
án þess að vita
hvert hinn stefnir.

Þótt annar renni óvart
framhjá
er ekki öll von úti.

Allir þurfa stundum
að renna upp í móti
til þess að
sameinast.