Upphaf endalokanna
Hvað heyri ég þegar vindurinn bærir laufið, þegar báran faðmar landið og síast aftur gegnum sandkornin; hvaða strengi hverrar lýru slá dyntóttar bylgjur regnsins í því það guðar á ljóra vitundarinnar, eða hvað segir þögnin er síðasta dropann leggur niður hvarma festingarinnar, sem aftur rofnar er hann brotnar í hildarleik óhjákvæmilegs en ef til vill tímabærs dauða á steinsteyptum grafreit systkina sinna, malbikinu, aðeins til að skapa andartaks eilífðartilfinningu okkur hinum sem eftir stöndum?
II.
Hvern sannleik ber söngur þrastarins sem eftir fylgir, hver hughrif ber laufgun trjánna, hverja ást ber rósin í uppruna sínum?
III.
Hvert upphaf ber hvert upphaf í sjálfu sér, í endurómun sjálfs sín aftur, nema endurómun sjálfs upphafs upphafanna, upphafs þíns, ó fagra veröld? Í upphafi sérhverrar ástar má þinnar endurómun finna, en upphaf sérhverrar ástar aðeins endurómun hinna, og endurómun þinnar ástar upphafs mun aldrei linna, en sjálfs þín ást í upphafi væri of sterk fyrir oss að finna.
IV.
Æ styttist vorið með ári hverju, þú gæfir, veröld, það komið væri, en þynning frumsins í eilífðar endurómun er hinum hinsta regndropa lík, hún brotnar loks á kistuloki allífsins, of sein til að lifa, of fljót að deyja, og eftir stendur þögnin, þögnin að eilífu, þögnin. Ef aðeins þú lifðir í ljóði, ó veröld, ef ekki þyrfti allt að enda sem eitt sinn er hafið.
Allar athugasemdir og ábendingar verða vel þegnar.