Hér er ekkert að finna. Málfundafjelagið er liðið undir lok
FORVM POETICVM: novembre 2005

FORVM POETICVM

Málgagn Málfundarfjelags vinstrisinnaðra ungskálda

martedì, novembre 29, 2005

Örbirgð

Ég sé eymd í hverju horni
í hverjum kima sé ég sorg.
Á göngu sé ég svartstakk
sín vonbrigði bera á torg.

Í augum sérhvers er angist
og eilífðar nístir hvern mein.
Í vondri sem þessari veröld
vér vargbitin stöndum ein.

Í vetrarins húmi þeir hírast
við húsgafl sér orna’ undir feld.
Þeir hafa’ eigi viður né væri
né vonir né hugsjónaeld.

Hverfa mun lífið úr lúkum
ljábitnum manna vors lands.
Því hver geldur þeim fyrir gullið
sem ginnt var af þeim fyrir sand?

Fært í rím þann 29. nóvember 2005. Tilefni kvæðisins er, að ég sá svartklæddan eymingjalegan mann rogast með poka af áldósum eftir Suðurlandsbrautinni, hvar Kauphöllin lá í baksýn.

Gera mætti athugasemd við málfræðiatriði í fjórða erindi, „lúkum ljábitnum manna“.
Mun einhverjum e.t.v. finnast, að þar ætti að standa „lúkum ljábitinna manna“, en við það ruglast merkingin, þar sem mennirnir eru ekki ljábitnir heldur lúkur þeirra.
Einhverjum gæti ennfremur fundist, að betur færi að segja „lúkum ljábitnum mönnum“, en ljábitnum er hér ekki forsetningin, heldur lúkum, og því fer fall manna eftir því.
Mun þá vonandi gert út af við mögulegar athugasemdir málfræðifasista.

venerdì, novembre 25, 2005

Hádegisskemmtun

Aldrei aftur
mun hún sjá sólarljósið,
stúlkan, sem stal brauðinu
af götusölumanninum.

Fyrst er hún stal
nægði að taka höndina,
annað sinn hina,
þriðja sinn vantaði hönd að taka.

Fyrir því
tóku þeir augun,
gættu þess þó,
að nauðga henni fyrst.

Skondnast þótti að sjá
hvernig hún bar sig að
handalaus
með brauðið í kjaftinum.

Leikar og brauð,
sagði keisarinn forðum,
en enginn hafði fyrr séð
leika með brauði.

Og fyrir því hún fékk ekki brauð
fengu hinir leika,
en hún hlaut gamanið
af að taka þátt.

En hún vildi ekki brauðið
heldur börn sín á lífi,
líkt og þau vildu móður,
ekki ormétið brauð.

giovedì, novembre 24, 2005

Von er mikils vísir (og móðir vonbrigða)

Vonarlaust er vesælt ómannsefni
er veigrar sér frá stúlku hvurt sem stefnir.
Armur mætir veravörgum víða,
vammlaus váin varnarlausan hýða;
í vöku þreytir sálarstríð sem aðeins vinnst í svefni.

Er horfin mun sú hýra hrönnin blíða
hrekklauss piltsins harmakveinin líða.
Óttaslegin hjörtu’ í húmið hverfa;
hugarvíl hins unga’ að öldnum sverfa.
en angistin var undin ofan köngurvofnakvíða.

Í vöku sem í svefni þótt þú sofir meðan vakir,
vísir er að mislukkan og sálar þinnar hraki.
Í hillingaregni hörmunganna hrekkur
hróðug tilvist tírs sem eigi stekkur;
tækifærin til þess eru’ að grípa kverkataki.

Þennan leirburð hnoðaði ég saman klukkan fjögur í nótt, og verði ég einhvern tíma orðaður við nóbelinn, mun þessi vísa verða til þess að ég fæ hann ekki.

venerdì, novembre 18, 2005

Eitt sinn bað ég um engil í staðinn fékk ég Gyðju

Ég átti eitt sinn kónguló
en þú komst og ást hana.

Snædúfan sem færir mér veturinn
lóan sem fylgir vorinu
þú kyssir sárin
klórar mér í hjartanu
ert skjólið fyrir bylin
svalur andardrátturinn

Ég skal vera bílstjóri þinn!

martedì, novembre 01, 2005

Hnotubrjótur

Held ég hafi drepið sól mína
svo ég horfi á tunglið í staðinn
Tunglskynið skýn eigi á mig
því bakvið haug lyga og skíts
ég fel mig.

á mér eru rúnirnar og merki konunar
nafn þitt á mig rist
get ei byrjað aftur
svo ég kafna í mínum eigin haug
ég er víst hnotubrjótur

Eiðurinn enn hér á mér
eigi get ég gleimt þér.