Hér er ekkert að finna. Málfundafjelagið er liðið undir lok
FORVM POETICVM: marzo 2005

FORVM POETICVM

Málgagn Málfundarfjelags vinstrisinnaðra ungskálda

lunedì, marzo 28, 2005

Friðþæging

Þér finnst það eflaust skrýtið,
en ég man alltaf eftir því,
þegar ég fékk frá þér afmæliskveðjuna.
Það var ekki tilefnið
sem gladdi þessa örmu sál,
það var ekki innihaldið
sem gerði líf mitt betra,
þó ekki nema væri
í einn dag.

Þér finnst það eflaust skrýtið,
en öðru fremur var það tilefnisleysan
og skortur á innihaldi,
já, skortur!
Að þú hafir fundið þér tíma
til að kasta á mig kveðju
- þessa örmu sál -
án nokkurs tilefnis,
án þess,
að segja nokkuð fleira.

Þér finnst það eflaust skrýtið,
en það er sú tilfinning,
sú ósjálfselska fórn,
sá æðisþrungni draumur um hamingju,
aðeins tilhugsunin um tilvist slíkra hluta!
- sem læsti sig um mig
og hélt mér föngnum,
þó ekki nema væri
í einn dag.

Það að ég hafi runnið um hugarfylgsn þín,
þó ekki nema væri
í eina sekúndu,
veitti mér botnlausa hamingju
og lífsfyllingu
í heilan dag.

Þá fyrst vissi ég að þér var ekki alveg sama,
þó það væri ekki meira,
og það hefur verið mér bjarg
í brotsjó ástarinnar
allar götur síðan.
Þér finnst það eflaust skrýtið.

domenica, marzo 20, 2005

Nóttin

Nóttin
er afhvarf sálarinnar.

Stjörnurnar
eru hugðarefni hennar.

Norðurljósin
eru leyndardómar hennar.

Myrkrið
afkimar hennar.

Dögun
dauði hennar.


En dauðinn
er sálarlaus nótt.

giovedì, marzo 17, 2005

Sælir eru hinir hungruðu

Þú gefur
öndum brauð
á tjörninni
og mávarnir
stela því.

Þú sendir
fólki brauð
með flugvél
og glæpamenn
stela því.

En hugsjónin
er skynseminni
yfirsterkari.
Stundum til góðs
en oftar til ills.

mercoledì, marzo 16, 2005

Vöntun á guðdómlegum gleðileik

Fyr löngu eg glutraði guðanna tungu
sem guma eg af nú í áranna síð.
Því það síðasta’ í súrnuðum huga’ hinna ungu
er sá selvfølgelig siður að halda’ henni við.

Í djöfulleik dvalans eg get eigi dabblað
í Petrarca, Dante og Decameron.
Stend eg nú strendur á djöfulsins gaflhlað,
streitist við lestur en á enga von.

Eg stjaksettur er á strekki hins dauða
strípaður hugarins stolti.
Krufinn af Kolbílda, krákurnar kroppa í
kroppinn minn menningarsnauða.


Fyrir fullkominn skilning lesenda á þessu kvæði hef ég haft orð á skammarlegri vöntun á íslenskri þýðingu á La Divina Comedia eftir Dante Alighieri hérna.

martedì, marzo 15, 2005

Orðaskak

Stafirnir standa á síðunni þverir
stara illir í augu mín inn
Sveifla sverði gegnum loftkenndar verur
Svo eggin skerst í mitt eigið skinn

venerdì, marzo 11, 2005

Óður til ellibelgja

Sú gamla,
nú loks er orðin klikkuð.
Ei vitandi vits,
ekkert hafandi.

Við gætum
varpað henni
fram af kletti,
úr hjólbörum okkar?

Nei.
Hún á betra skilið.
Við skiljum hana eftir
hjá góða fólkinu
á elliheimilinu,
sem dópar hana upp
og lætur hana hlusta
á harmonikkutónlist.

Dögun

Senn dagar uppi nætur fagra næði.
Að nýju hefst og mannanna brjálæði.
En dögun grætur dauða næturinnar
og döggvar grasið tárum sorgar sinnar.

giovedì, marzo 10, 2005

Ástarsúkkulaði

Færðu mér bita, sagði hefðarfrúin
og þig mun aldrei hungra,
þig mun ekki skorta,
og þú átt alltaf næði, í mínum örmum

martedì, marzo 08, 2005

Tímaþröng

Ég hugsa að ég hafi rofið kaldhæðnismúrinn við samningu þessa kvæðis. Það fjallar um tímaþröng mína í námi og ég eyddi hálfum skóladegi í rímfæringu þess. Hér er það nú, í óhreinskrifaðri útgáfu. Þætti vænt um að fá athugasemdir mér til ábendingar um hvað skal til tekið, í yfirvofandi lagfæringu.
Ykkur til athyglisaukningar tek ég fram, að samkvæmt bragarhætti þessum, sem ég hef sjálfur skapað, skulu atkvæði lína skiptast 13, 14, 13, 14. Þá reglu brýt ég sjálfur fyrir munnlega hrynjandi kvæðisins, en það lá mér óþjált í munni með réttum atkvæðafjölda. Sem lýsir best vandkvæðum þess, að yrkja undir þessum hætti. Rím skal vera 1, 2, 1, 2 og innrím 1, 1, 2, 2.

Tímaþröng

Tíminn nú er á þrotum, mjer tifað hefir frá.
Tættur, að niðurlotum kominn, sigraður eg hey
höfgar andans hildir, við þá eirðarlausu vá
Heljar, tímans skildir, brostnir, rétt áður eg dey.

Skáld af öllu afli skýlir, hjarta sínu frá
skugga-öflum, tímans hvílir óvæginn á þungi
höfundar bognu herðum, leiddur yfir dauðans á
hörfa’ undan tímans sverðum, ó sá drýsilslegi drungi.

Sú herskáa herjans fylking, hatrammlega berst
hjarta skáldsins nærri, birting dagsins er í nánd.
En um leið og ógn er aflétt og loks til sunnu sést,
þá tímans bitra véfrétt, hefir komið mjer í gránd.

lunedì, marzo 07, 2005

Snemmkoma vorboðans

Fögur gefur fyrirheit um vorið,
farsældin með birtu’ í fyrirrúmi.
En sýnin hefur blekkt og sál þín skorin,
því söngur vorsins horfinn er í húmið.

sabato, marzo 05, 2005

Svið örlaganna

Við sitjum
í biðsal eilífðarinnar.
Þar er dimmt,
en mér finnst rökkrið ágætt.

Einhver talar
en ekkert heyrist.
Kliðurinn
kæfir öll hljóð.

Allir tala - en enginn hlustar.

Við sitjum
í biðsal dauðans
með orpin andlit

og bíðum fregna.